Fólk er í misjafnlega góðri stöðu til þess að takast á við æviskeiðið sem tekur við eftir að það hættir að vinna. Munurinn eftir löndum er mikill og félagslegu kerfin sem ætlað er að jafna aðstöðumun fólks eru misgóð.

6. febrúar 2018 | Ari Skúlason

Einstaklingar eru misjafnlega vel búnir til þess að takast á við síðasta skeið ævinnar og þar skipta margir þættir máli. Það er þannig ekki háð tilviljunum hverjir eru heilsuhraustir og hverjir ekki - menntun skiptir t.d. miklu í því sambandi. Því betri menntun, því meiri líkur á góðri heilsu. Það samband gildir um allan heim.

Eldra fólk, einkum konur, eru oft í ólaunaðri vinnu. Þarna er oft um umönnun innan fjölskyldunnar að ræða, t.d. umönnun barnabarna til þess að skapa svigrúm fyrir foreldra að standa sig betur á vinnumarkaði. Konur standa því oft verr að vígi en karlar þegar aldurinn færist yfir. Í heimi þar sem meðalaldur hækkar sífellt og fólk býr lengur við góða heilsu er vart viðeigandi að tala um að ellin taki við að aflokinni hefðbundinni starfsævi. Að aflokinni starfsævi við 67 ára aldur geta sífellt fleiri búist við að eiga sífellt lengri tíma eftir við góða heilsu, eins og rætt var í fyrsta kafla þessarar umfjöllunar.

Margir spara alls ekki nóg til efri áranna. Þannig er t.d. talið að um 40% Bandaríkjamanna hverfi af vinnumarkaði án þess að eiga nokkurn sparnað. Í Bretlandi er talið að um 20% kvenna og 12% karla á aldrinum 55-65 ára eigi engan uppsafnaðan sparnað.

 

 

Í ljósi þess að fólk á von á því að lifa lengur þurfa flestir að spara meira en foreldrar þeirra gerðu. Stundum getur matið á því hversu mikill sparnaðurinn þarf að vera verið rangt. Fólk reiknar með að lifa mun skemur en það gerir í raun og veru og telur líka að sparnaður þess endist lengur en raunin verður. Hér á landi höfum við samtryggingarkerfi í lífeyrissjóðunum sem tryggir lífeyri út ævina, hversu löng sem hún verður.

Í sumum löndum eins og hér, í Danmörku og Hollandi eru lífeyriskerfin mjög sterk og um skylduaðild að ræða. Þar verður því mun minni hætta á ójöfnuði milli fólks og kynslóða.

Í sumum löndum snýr mesta áhættan og óvissan í fjármálum að því að þörf fyrir umönnun og þjónustu getur orðið mikil og dýr síðustu æviárin. Í sumum löndum er hefð fyrir því að fjölskyldan sjái um þetta sjálf, sem bitnar einkum á konum og þátttöku þeirra á vinnumarkaði, sem aftur stuðlar að því að konur eru í lakari stöðu á efri árum. Eftir áttrætt er líklegt að einn af hverjum fimm upplifi einhver minnisglöp, fjórði hver mun hafa lélega sjón og fimmti hver heyra illa og þessum vandamálum fjölgar mikið eftir nírætt. Því miður er það þannig að þeir sem hafa minni efni og minni menntun eru miklu líklegri til þess að upplifa þessi vandamál.

 

 

Hærri aldur fólks almennt mun örugglega hafa áhrif á jafnrétti kynjanna með þeim hætti að aukin umönnun eldra fólks mun eftir sem áður bitna mun meira á konum en körlum. Þetta er ein ástæðan fyrir því að nauðsynlegt er að stjórnvöld búi sig með sem bestum hætti undir þá staðreynd að þorri fólks mun lifa miklu lengur en áður var.

Eins og staðan er núna eru þeir efnuðu og vel menntuðu í mun betri stöðu til þess að mæta öllum þeim vandamálum sem lengra líf og lengri elli skapa. Þó staðan sé sú að fólk lifir mun lengur í ríkari hluta heimsins en þeim fátækari, ríkir einnig mikill ójöfnuður af þessu tagi sums staðar í hinum vestræna heimi. Munur á dánartíðni þeirra sem hafa háskólamenntun og þeirra sem hafa hana ekki hefur t.d. aukist í Bandaríkjunum á síðustu 20 árum. Í löndum OECD getur meðalmaðurinn með góða menntun átt von á því að lifa átta árum lengur en samskonar maður með lágmarksmenntun. Sumum hópum vegnar þannig betur en öðrum.

Mismunun kemur einnig upp gagnvart eldra fólki sem kýs að vera lengur á vinnumarkaði en tíðkast í þeirra umhverfi. Flestir fá ekki að vinna eins lengi og þeir vilja og geta. Þarna gæti löggjöf mögulega hjálpað en mun betra væri að atvinnurekendur átti sig á þeim tækifærum sem felast í að halda eldra fólki í vinnu og að slík útfærsla sé frekar viðskiptalega hagstæð en félagsleg eða lagaleg skylda. Eins og áður segir sýna rannsóknir að blandaðir aldurshópar standa sig yfirleitt vel við að skila því sem farið er fram á.