Ýmsar tækniframfarir hafa skapað lausnir sem gera fólki kleift að búa lengur heima og viðhalda sjálfstæði sínu í stað þess að yfirgefa heimilið og flytja inn á einhvers konar stofnun.

6. febrúar 2018 | Ari Skúlason

Fyrr á árum eyddi fólk elliárunum yfirleitt heima hjá sér og fékk þá nauðsynlega umönnun frá ættingjum. Á síðustu öld breyttist þetta nokkuð og stofnanavæðingin tók við í hinum vestræna heimi. Umönnunarhlutverkið var sett í hendur stofnana af ýmsu tagi og þessi lausn hefur í töluverðum mæli verið tekin upp í nýríkum hagkerfum, eins og t.d. Kína. Þó hefur eldra fólk yfirleitt ekki mikinn áhuga á því að búa á stofnunum í lengri tíma.

Þróunin hefur því færst aftur í þá átt að eldast heima eins og áður var. Það felur auðvitað í sér ákveðna áhættu, t.d. ef fólk gleymir að slökkva á tækjum o.s.frv. Ýmsar tækninýjungar geta hins vegar dregið úr þessari áhættu og gert eldra fólki mun öruggara að búa áfram í heimahúsum og þar með að halda sjálfstæði sínu.

Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir að margar tækninýjunganna sem gera fólki auðveldara að búa heima voru fyrst og fremst hannaðar fyrir yngra fólk. Tveir þættir sem markaðurinn horfir á í sambandi við unga fólkið, tæknivædda heimilið og skiptihagkerfið, nýtast eldri aldurshópum jafnvel betur en þeim yngri.

 

 

Ýmsar tæknilausnir fyrir heimili nýtast eldra fólki mjög vel, t.d. auðvelt eftirlit á því hvort allt sé í lagi í gegnum fjarskipti í síma eða tölvum og möguleikinn á því að nýta upplýsingar með fyrirbyggjandi hætti þannig að hægt sé að koma í veg fyrir stærri vandamál. Breytingar á atferli eldra fólks gætu gefið vísbendingar um ákveðna sjúkdóma og breyting á göngulagi getur verið merki um aukna hættu á að detta.

Auðvelt er að fylgjast með atriðum eins og þessum með nútíma tækni. Í nútíma tækniheimi eru lausnirnar óendanlegar, kæliskápur gæti fylgst með því hvað þarf að kaupa inn, hægt er að fylgjast með svefni fólks og atferli almennt. Það er því orðið auðveldara en áður að minnka áhættuna á því að eldra fólk verði fyrir óhöppum og að það hreinlega gleymist. Miklir tæknimöguleikar eru þegar fyrir hendi hvað öll þessi atriði varðar og þróunin er hröð.

Spurningin er hins vegar hver eigi að borga fyrir lausnir af þessu tagi. Á eldra fólk eða aðstandendur þess að borga vegna þess að fólkið vill vera áfram heima, eða á hið opinbera að koma að með einhverjum hætti vegna þess að mögulega er verið að spara því mikinn umönnunarkostnað? Það jákvæða í málinu er að kostnaður við lausnir af þessu tagi fer sífellt lækkandi. Fókusinn við framleiðslu og sölu er oft á sterkan neysluhóps ungs fólks, en þeir sem eldri eru njóta oft góðs af.

 

 

Nútíma netlausnir gagnast þeim eldri líka

Facebook var hönnuð fyrir ungt fólk sem þarf sífellt að vera í sambandi, en þessi lausn nýtist engu síður við að draga úr einangrun eldra fólks. Þriðjungur Bandaríkjamanna eldri en 65 ára notar samfélagsmiðla og um tveir þriðju hlutar fólks á aldrinum 50-65 ára. Hér á landi hefur tölvu- og netnotkun eldra fólks aukist mikið. Á árinu 2014 notuðu yfir 90% 55-64 ára fólks tölvu eða net daglega eða næstum daglega. Munur á kynjum varðandi tölvunotkun var töluverður fyrir nokkrum árum en var næstum horfinn á árinu 2014.

Ýmis þjónusta skiptihagkerfisins gagnast eldra fólki líka vel. Sumsstaðar erlendis er nú hægt að panta hjúkrun og ýmis konar þjónustu með litlum fyrirvara. Þjónusta af þessu tagi á sér tvær hliðar fyrir eldra fólk. Það getur nýtt sér þjónustuna, en það getur líka tekið þátt í því að veita hana. Sérfræðingar af ýmsu tagi, sem ekki eru lengur á vinumarkaði, eiga oft gott með að finna sér starfsvettvang innan skiptihagkerfa. Hér er um að ræða hæft fólk sem hefur nógan tíma og oft meiri sveigjanleika en þeir sem yngri eru.