Í félagi Harley Davidson eigenda á Íslandi, H.O.G. - Chapter Iceland, starfa að jafnaði um sjötíu manns. Frá stofnun hafa félagar farið með unga sem aldna á rúntinn á mótorhjólum á Menningarnótt gegn vægu gjaldi. Afraksturinn rennur svo óskiptur til Umhyggju, félags langveikra barna.

17. ágúst 2017

Til þess að vera meðlimur í Harley Owner Group (H.O.G.) er fyrst og fremst nauðsynlegt að eiga Harley Davidson mótorhjól. Á heimsvísu eru félagar í H.O.G. vel á aðra milljón og félagsmenn eru sérstaklega hvattir til þess að láta gott af sér leiða.

„Fólk hefur oftar en ekki ákveðna sýn á mótorhjólamenn og mótorhjólafólk yfir höfuð. Við erum svolítið lituð af ákveðinni ímynd út af klæðaburðinum og þess háttar og þá einna helst leðurfatnaði og jafnvel vestum. Mig persónulega langaði t.a.m. ekki bara í eitthvert mótorhjól, mig langaði að eignast Harley Davidson og að kynnast þeirri upplifun með vindinn í andlitið. Að vera á þessari línu mótorhjólamennsku sameinar svona sitt lítið af hverju; þú heillast af ákveðnum tíðaranda, menningu og sögu og verður hluti af stóru samfélagi, svipað þenkjandi fólks með sameiginlegt áhugamál,“ segir Ívar Örn Guðmundsson varaformaður HOG - Chapter Iceland.

Fastur liður í hátíðarhöldunum

Félagið hér á landi var stofnað árið 2001 og eru meðlimir nú um 70 talsins. Góðgerðarkeyrslan hefur verið ómissandi hluti af starfi félagsskaparins, en ekki síður hátíðarhöldum á Menningarnótt í 16 ár og það verður engin undantekning núna. Fyrsta árið var ekið inn í Laugardal en síðan hefur rúnturinn hafist við Alþingishúsið og legið fyrst í hring um Tjörnina og nú eilítið styttri hring um miðbæinn.

 

Ívar Örn Guðmundsson varaformaður félagsins með dóttur sinni Maríu Ísabellu á góðri stundu á Menningarnótt.

 

Mynd birt með leyfi H.O.G. Chapter Iceland

Ferðirnar eru sérstaklega vinsælar hjá yngri kynslóðinni en fólki á öllum aldri er velkomið að fá sér far gegn vægu gjaldi. Ívar segir meðlimi skiptast á að keyra og að á deginum sjálfum séu allt að 20 hjól í notkun á sama tíma. Fleiri leggi hönd á plóg til að gera viðburð eins og þennan að veruleika. Þannig hefur TM styrkt félagið með hjálma og Shell/Orkan lagt til eldsneyti á fararskjótana fyrir daginn.

„Mottóið okkar þennan dag er það sama og alla aðra daga þegar kemur að því að vera á hjólunum – að hafa fyrst og fremst gaman af þessu og á sama tíma að hafa öryggið í fyrirrúmi. Viðburðurinn krefst töluvert mikillar skipulagningarvinnu og þar koma ekki síst konurnar okkar sterkar inn. Þetta snýst ekki bara um að reiða fólk á hjólunum heldur þarf að selja miða, setja hjálma á fólk og huga að öllum öryggisatriðum.

Krakkarnir eru svo ótrúlega ánægðir með þetta að það er alveg frábært og gleður okkur alltaf jafn mikið. En við fáum fólk á öllum aldri til okkar á þessum degi. Til dæmis hafa fullorðnar konur komið með okkur á rúntinn, eftir að hafa alla tíð dreymt um að fá að sitja aftan á mótorhjóli. Þær eru ekki síður ánægðar með þetta. Ferðamennirnir koma líka, börn sem eru lasin, fólk sem getur varla gengið og allt þar á milli. Við hjálpum fólki upp á hjólin og pössum upp á farþegana okkar. Það er mikil gleði á þessum degi,“ segir Ívar Örn.

Mynd birt með leyfi H.O.G. Chapter Iceland

Mjúkir menn undir leðurjökkunum

Eins og undanfarin ár rennur ágóði góðgerðaakstursins óskiptur til Umhyggju, félags langveikra barna. Ívar Örn segir það gefa meðlimum félagsins mikið að geta lagt sitt af mörkum til samtaka eins og Umhyggju og að geta þannig styrkt félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Undir bróderuðum leðurjökkunum í H.O.G. félaginu er fólk úr öllum áttum. Í félagsskapnum er bæði fólk sem starfar með höndunum og huganum, karlar og konur, og meðlimir eru allt upp í að vera á áttræðisaldri. „Þó við séum í galla og leðri þá erum við bara ósköp venjulegir; pabbar, bræður, afar og vinir. Leðrið er aðallega til að verja okkur ef um óhapp verður að ræða, en merkingarnar ekki síst gerðar til að merkja það hvaða félagsskap við tilheyrum, hvaðan við erum og jafnvel hvert við höfum farið.

Við erum mjög þakklátir skipuleggjendum hátíðarinnar og borgaryfirvöldum fyrir að fá að halda þennan viðburð á besta tíma, ár hvert. Þetta fólk hefur fullan skilning á því hvað við erum að gera: styðja, gleðja og um leið aðeins að sýna hvers konar félagsskapur við erum,“ segir Ívar að lokum.

Mynd birt með leyfi H.O.G. Chapter Iceland

Góðgerðarakstur 19. ágúst 2017

Félag Harley Davidson eigenda á Íslandi, bjóða einstaklingum upp á að vera farþegar á hjólum sínum í stuttri ferð um miðborgina á Menningarnótt. Keyrslan er frá Austurvelli (framan við Alþingi), að Suðurgötu, um Skothúsveg & Tjarnargötu, svo um Vonarstræti og Templarasund að Kirkjustræti, á milli 14.00 – 16.30, kostar 1.000 kr. á einstakling sem rennur óskipt til styrktar Umhyggju.