Sjálf­bærni­dag­ur 2023 – upp­tök­ur

Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Sjálfbærnidagur 2023
8. september 2023

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og fjallaði stuttlega um aðgerðir Landsbankans í sjálfbærni síðastliðið ár. Hún benti á að starfsemi banka sem slík væri lítið mengandi.

Megináhrifin eru í lána- og eignasafni

Megináhrifin á sjálfbærni kæmu fram í lána- og eignasafni þeirra og m.a. með því að styðja við viðskiptavini, safna upplýsingum og miðla þeim gætu bankar haft áhrif. Landsbankinn gerir það, að sögn Lilju, en bankinn gerir einnig margt til að draga úr mengun frá sinni eigin starfsemi og benti hún á að notkun bankans á jarðefnaeldsneyti dróst saman um þriðjung á milli áranna 2021 og 2022. Hjá bankanum væri lögð mikil áhersla á sjálfbærnimál og að þekkja áhrif lána- og eignasafnsins. Þá hefði bankinn nú fengið fulla endurskoðun á loftslagsbókhald sitt og þessar upplýsingar væru nú birtar í reglulegum uppgjörum.

Horfa á erindi Lilju

Upptaka frá fundinum

Goðafoss grafík

Hvar stöndum við í loftslagsmálum?

Sjálfbærnidagur 2023

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ræddi um mikilvægi fjármálakerfisins, banka, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða í loftslagsmálum. Hann sagði að málaflokkurinn einkenndist af upplýsingaóreiðu og misskilningi. Þannig héldu t.a.m. margir að loftslagssamningar og skuldbindingar Íslands væru nýjar af nálinni en svo væri aldeilis ekki. Hann ræddi um nýleg kaup Íslands á loftslagsheimildum sem væru tilkomin vegna þess að við hefðum klúðrað okkar málum og hefðum ekki dregið nægilega úr útblæstri, ræktað upp land eða ræktað skóg. „Þetta var fullkomið klúður og við þurftum að kaupa loftslagsheimildir fyrir 350 milljónir – sem við héldum reyndar að myndu kosta 800 milljónir,“ sagði hann. Mun betra hefði verið að nota þessa peninga með uppbyggilegum hætti hér á landi. Ef við ætluðum ekki að lenda aftur í því sama árið 2030, þegar uppgjör vegna Parísarsamkomulagsins fer fram, yrðum við að gefa í. „Það er 2030 sem skiptir máli. Og það er bara á morgun!“

Horfa á erindi Guðlaugs

Aðlögun samfélags að breyttum heimi

Sjálfbærnidagur 2023

Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, fjallaði um aðlögun samfélags að breyttum heimi. Hún benti m.a. á að aðlögun væri í raun hin hliðin á loftslagsaðgerðum en við værum vanari því að tala um aðgerðir til kolefnisbindingar og samdráttar í losun. Mannkynið og aðrar lífverur hefðu í gegnum aldanna rás þurft að aðlagast breytingum. „En þegar við tölum um aðlögun að loftslagsbreytingum þá erum við að horfast í augu við að vegna loftslagsbreytinga þá eru þessar breytingar að eiga sér stað miklu hraðar,“ sagði hún. Það ætti við um breytingar á vistkerfum, súrnun sjávar, hækkun loft- og sjávarhita og margt fleira. „Og það getur verið mjög erfitt fyrir lífverur, þar með talið manninn, að bregðast við. Þar að auki megum við vænta þess að náttúruvá magnist á stuttum tíma svo við verðum að halda vel á spilunum og greina aðstæðurnar vel og hratt.“

Horfa á erindi Önnu Huldu

Örkynning: Álfur Brugghús

Sjálfbærnidagur 2023

Haukur Páll Finnsson, stofnandi og eigandi Álfs Brugghúss, fjallaði um aðdraganda að og stofnun brugghússins en sérstaða þess felst í að brugga bjór úr kartöflum. Álfur notar afskurð og kartöfluhýði sem fellur til við framleiðslu á forsoðnum kartöflum við bjórgerðina. Afurðirnar hafa fallið vel í kramið og það finnst ekki á bragðinu að bjórinn frá Álfi sé gerður úr kartöflum, ekki frekar en að það finnst á Budweiser að hann sé úr hrísgrjónum.

Horfa á kynningju Hauks

Leiðin að kolefnishlutlausu flugi

Sjálfbærnidagur 2023

Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, sagði flugheiminn bæði standa fyrir áskorunum og tækifærum á vegferð sinni að aukinni sjálfbærni. „Við þekkjum skilgreiningu sjálfbærrar þróunar, þar sem þörfum samtímans er mætt án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að til að mæta sínum þörfum. Áhersla er lögð á að sjónarmið samfélags og náttúru standi jafnfætis þeim efnahagslegu,“ sagði hún. Flug væri hornsteinn nútímaþjóðfélags. Icelandair hefði um áratugaskeið byggt upp öflugt leiðakerfi sem styðji við efnahag landsins og lagt grunn að öflugri uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Flugið hefði þannig fjölþætt jákvæð áhrif á efnahag og lífsgæði en hefði líka í för með sér neikvæð umhverfisáhrif. Á heimsvísu næmi útblástur gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum um 2-3% af heildarútblæstri. Hún sagði að markmið Icelandair í loftslagsmálum væru skýr: „Við ætlum að draga úr losun um 50% á tonnkílómetra fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir 2050. Það er engin ein leið sem skilar þessum árangri, heldur verður þetta alltaf sambland mismunandi aðgerða og þær eru helstar flotaendurnýjun og fjárfesting í nýrri tækni, rekstrarumbætur og í þriðja lagi sjálfbært flugvélaeldsneyti.“

Horfa á erindi Heiðu Njólu

Allar vegasamgöngur alfarið á 100% rafmagni

Sjálfbærnidagur 2023

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, sagði ekkert vit í öðru en að allar vegasamgöngur á Íslandi yrðu alfarið knúnar af rafmagni. „Tæknin er komin,“ sagði hann. Mikil uppbygging hefði átt sér stað á hleðsluinnviðum og á næstu 12 mánuðum yrði algjör bylting í þeim efnum. Egill fjallaði um mikla söluaukningu rafknúinna fólksbíla en hlutfall rafbíla af nýskráðum fólksbílum í ágúst 2023 hefði verið 57% og um 76% í tilfelli Brimborgar. Samt sem áður væri aðeins um 6,5% af öllum bílaflotanum í dag rafknúinn og þrátt fyrir þessa miklu söluaukningu væri staðan sú að árið 2030 mætti búast við að aðeins um þriðjungur bílaflotans yrði knúinn með rafmagni eða annarri hreinni orku. Egill fjallaði einnig ítarlega um möguleika á þungaflutningum með rafmagnsbílum. Hann benti á að í Evrópusambandinu væru um 45% af öllum þungaflutningum á leiðum sem eru styttri en 300 kílómetrar en gera mætti ráð fyrir að þetta hlutfall væri hærra á Íslandi því hér væru vegalengdir styttri. Skilyrði fyrir því að rafvæða þungaflutninga væru öll fyrir hendi, tæknin væri á fullri ferð og það myndi koma fólki á óvart hversu hratt þessi möguleiki yrði raunhæfur.

Horfa á erindi Egils

Örkynning: Plastplan

Sjálfbærnidagur 2023

Björn Steinar Blumenstein, vöruhönnuður, stofnandi og annar eigandi Plastplans, sagði frá því að honum og Brynjólfi Stefánssyni, meðstofnanda og -eiganda, hefði árið 2017 fundist alveg galið að staðan á Íslandi væri sú að helmingurinn af úrgangsplasti væri brenndur og hinn helmingurinn urðaður. Í kjölfarið stofnuðu þeir Plastplan sem er hönnunarstudío og plastendurvinnsla. Markmið Plastplan er að stuðla að fullkominni hringrás plastefna og með því sýna fram á mikla möguleika sem felast í hráefninu.

Horfa á kynningju Björns

Fasteignafélag fyrir nýja framtíð
Stefna og áherslur Regins í sjálfbærni

Sjálfbærnidagur 2023

Sunna Hrönn Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni og rekstrar hjá Regin, sagði að vegferð Regins að sjálfbærni hafi hafist árið 2018 þegar félagið þurfti í fyrsta sinn að skila ófjárhagslegum upplýsingum. Síðan hefði þróunin verið ör og félagið náð mörgum mikilvægum áföngum. „Stefnumótun Regins hefur verið skýr, hefur leitt okkur áfram og er grunnur að árangri,“ sagði hún. Félagið hefði einsett sér að vera leiðandi í mótun og rekstri fasteigna og að stuðla um leið að velferð samfélagsins, bættum lífsgæðum og umhverfi íbúa. Stefnuáherslur félagsins mætti m.a. sjá í stefnu þess um kjarnasvæði, í sjálfbærnimálunum, sérhæfingu starfsfólks og stafrænni vegferð félagsins.

Í byrjun árs 2019 setti félagið sér sjálfbærnistefnu og mælanleg markmið og síðan hefur það unnið að ýmsum verkefnum sem það telur að getið hjálpað félaginu og viðskiptavinum við að gera fasteignasafnið sjálfbærara eins og t.d. með vottunum fasteigna, snjallsorpstöðvum og rafhleðslustöðvum. „Það tekur bæði tíma, mikla vinnu og fjármuni að auka sjálfbærni í rekstri fyrirtækja. Viðfangsefnin eru ótal mörg og þættirnir sem þarf að horfa til eru margvíslegir og miklu fleiri en ég er búin að vera að tala um í dag. Það sem hentar okkur sem fasteignafélag hentar ekki endilega öllum öðrum. Mitt ráð til þeirra fyrirtækja sem eru að hefja sína vegferð er: Kveikið áhuga hjá starfsfólkinu ykkar því með áhugasömu, hugmyndaríku og drífandi fólki sem lætur sér annt um umhverfið og samfélagið er hægt að gera ótrúlegustu hluti.“

Horfa á erindi Sunnu

Þú gætir einnig haft áhuga á
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
Fólk með hund úti í náttúrunni
28. feb. 2023
Kröfur til upplýsinga um sjálfbærni aukast hratt
Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki birta nú upplýsingar um hvaða áhrif starfsemi þeirra hefur á sjálfbæra þróun.
Sjálfbærnidagur 2022
22. sept. 2022
Sjálfbærnidagur Landsbankans – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 22. september 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var Tjeerd Krumpelman frá hollenska bankanum ABN AMRO.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur