Stjórnendur Bestseller á Íslandi gáfu sér góðan tíma við undirbúning og vinnu við nýja vefverslun fyrirtækisins, Bestseller.is. Sá undirbúningur fólst m.a. í að rannsaka sambærilegar vefverslanir erlendis og þróun síðustu ára.

23. mars 2017

„Markmiðið var að opna vefverslun sem væri á meðal þeirra bestu hérlendis og við teljum að það hafi náðst.” segir Lovísa Pálmadóttir, markaðsstjóri Bestseller. Hún efast ekki um að innkoma H&M á íslenskan markað muni hafa áhrif en telur erfitt að segja til um hversu mikil þau verða. Jákvætt sé fyrir alla að verslun flytjist heim.

Bestseller á Íslandi er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem starfrækir tíu fataverslanir í Kringlunni og Smáralind. Vero Moda og Jack&Jones opnuðu árið 1993 og síðan hafa Selected, Vila og Name it bæst við, ásamt fjölda undirmerkja. Vefversluninni Bestseller.is var svo hleypt af stokkunum á haustmánuðum eftir langan undirbúning. „Við fórum að huga að þessu fyrir rúmum tveimur árum en verkefnið tók eitt ár í framkvæmd,“ segir Lovísa og rifjar jafnframt upp að fyrirtækið gerði tilraun með vefverslun fyrir áratug en ekki reyndist rekstrargrundvöllur fyrir henni þá.

Við undirbúning nú var horft til rannsókna og þróunar í vefverslun erlendis en Ísland er enn talsvert skemmra á veg komið en löndin sem við berum okkur saman við. Vinna við vefkerfið miðaði að því að gera aðgengi viðskiptavinarins sem best. „Vefverslun þarf að vera aðgengileg og einföld í notkun. Leggja þarf áherslu á myndgæði, vörulýsingar, upplýsingar um efni og samsetningu, stærðir og liti. Einnig þarf að huga að flokkun varanna eftir tegundum, vörumerkjum og stílum. Markmið okkar var að tryggja að fyrstu hughrif viðskiptavinarins væru góð, enda er jafnan talið að vefverslun fái bara eitt tækifæri,” segir Lovísa.

Vefverslun þarf að vera aðgengileg og einföld í notkun. Leggja þarf áherslu á myndgæði, vörulýsingar, upplýsingar um efni og samsetningu, stærðir og liti.

Ljósmyndir: Golli

Vefverslunin hefur gengið vel á þeim stutta tíma sem hún hefur verið opin og viðbrögð viðskiptavina hafa verið góð. Það er svo til marks um að vel tókst til að Bestseller.is var tilnefnd sem besta íslenska vefverslunin á vefverðlaunahátíð Samtaka vefiðnaðarins. „Það var ánægjuleg viðurkenning og á henni munum við byggja til framtíðar því að þetta er langtímaverkefni, enda gera erlendar spár ráð fyrir að vefverslun með föt verði allt að fjórðungur heildarverslunar þegar fram í sækir. Það er enn langt í að svo verði hérlendis en við erum undir það búin.”

Vefverslunin styður við hefðbundnu búðirnar

Viðskiptaumhverfi Bestseller er að mörgu leyti frábrugðið því sem gerist víða erlendis. Lovísa bendir á að bróðurpartur viðskiptavina fyrirtækisins búi nálægt Kringlunni og Smáralind en víða erlendis þurfi fólk að ferðast um langan veg eða í mikilli umferð til að komast í tilteknar verslanir. „Engu að síður kjósa sumir að versla á vefnum og sá hópur fer ört stækkandi. Vefverslunin er til að mynda kærkominn valkostur fyrir fólk á landsbyggðinni en þar eigum við trygga viðskiptavini sem hafa pantað hjá okkur símleiðis. Nú hafa þeir fengið mun betri aðgang að okkur. Svo finnum við að vefverslunin styður við hefðbundnu búðirnar því fólk er oft búið að kynna sér vörunar vandlega þegar það kemur og kaupir þær.“

Einföld umsýsla með vefverslun

Íslandspóstur annast dreifingu fyrir Bestseller.is og pantanir sem gerðar eru fyrir klukkan þrjú á daginn fara samdægurs í póst. Það þýðir að yfirleitt berst sendingin kaupandanum daginn eftir. Lovísa segir að umsýslan í kringum vefverslunina sé fremur einföld og það sem snúi að viðskiptavinum hvíli að mestu á einum starfsmanni. Hins vegar geti verið umstang í kringum endursendingar, ef varan hefur til að mynda ekki uppfyllt þarfir kaupenda. „Fyrirtæki erlendis eru sífellt að finna leiðir til að auðvelda vefverslunina og við fylgjumst vel með. Það er stöðugt unnið að því að bæta viðmótið svo fólk geri sér betur grein fyrir kostum og eiginleikum vörunnar en þannig er hægt að draga úr kostnaðinum sem fylgir endursendingum. Eitt prósent til eða frá í þeim efnum getur numið háum fjárhæðum þegar horft er til heildarvefverslunar með fatnað.“

„Vefverslunin er til að mynda kærkominn valkostur fyrir fólk á landsbyggðinni en þar eigum við trygga viðskiptavini sem hafa pantað hjá okkur símleiðis. Nú hafa þeir fengið mun betri aðgang að okkur.“
Um leið og niðurfellingin varð að veruleika réðst Bestseller í verðlækkanir sem námu öllum tollum og gott betur, því þróun gjaldmiðla gaf færi á enn frekari verðlækkun.

Lækkuðu verð um leið og tollar voru felldir niður

Tímamótabreytingar urðu hérlendis í ársbyrjun 2016 þegar tollar af fatnaði sem framleiddur er utan Evrópu voru afnumdir. Lovísa segir þá aðgerð stjórnvalda hafa haft veruleg áhrif þar sem tveir þriðju hlutar vara Bestseller sé framleiddur utan Evrópu. Eigendur Bestseller hafi um árabil talað fyrir niðurfellingu þessara tolla, enda skekktu þeir samkeppnisstöðu verslunar á Íslandi gagnvart útlöndum svo um munaði. Um leið og niðurfellingin varð að veruleika réðst Bestseller í verðlækkanir sem námu öllum tollum og gott betur, því þróun gjaldmiðla gaf færi á enn frekari verðlækkun.

Verslanir Bestseller lifa góðu lífi í nágrenni við H&M

Sem kunnugt er líður að því að sænska verslanakeðjan H&M hefji starfsemi á Íslandi. Margir Íslendingar hafa skipt myndarlega við fyrirtækið í gegnum árin og talið er að um fjórðungur heildarviðskipta Íslendinga með föt fari fram í verslunum H&M erlendis. Lovísa efast ekki um að innkoma H&M á íslenskan markað muni hafa áhrif en telur erfitt að segja til um hversu mikil þau verða. „Ég trúi að þetta styðji almennt við verslun í landinu og að fatakaup sem gerð hafa verið erlendis færist að töluverðu leyti heim. Það gæti stutt við aðrar verslanir hérlendis og þannig haft jákvæð áhrif. Opnun H&M mun örugglega vekja athygli, Íslendingar hafa áhuga á nýjum verslunum og kynna sér vöruframboðið. En við vitum líka að ýmsar verslanir, til dæmis verslanir Bestseller, lifa góðu lífi í nágrenni við H&M búðir erlendis. Bestseller hefur í aldarfjórðung lagt áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu. Við höldum okkar striki og bjóðum áfram fallegar gæðavörur á góðu verði.“

102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!