Bandaríski verslunarrisinn Costco er á leið til Íslands. Aðstoðarforstjórinn Steve Pappas segir að íslenskir neytendur ættu að búa sig undir að láta koma sér óvart – í hverri heimsókn geti fólk átt von á að sjá nýjar vörur sem það vissi ekki það vantaði en geti ekki annað en keypt, svo hagstæð verði kjörin. Hann segir Costco ekki ætla að velja sér keppinauta á markaðnum – sérstaða Costco felist í að keppa við svo til alla.

23. mars 2017

Til stendur að opna 14.000 fermetra verslun Costco við Kauptún í Garðabæ, til móts við IKEA, í lok maí. Verslanir Costco eru reyndar ekki kallaðar verslanir, heldur vöruhús, enda er Costco strangt til tekið skilgreint sem heildsali en ekki smásali. Verslunin, eða vöruhúsið, mun bera keim af því – þar verða vörur í magnpakkningum á brettum á miðju steinsteyptu gólfinu, gangarnir breiðir og bjartir, merkingar skýrar og viðskiptavinir þjónusta sig mikið til sjálfir. Steve Pappas, aðstoðarforstjóri Costco í Evrópu, segir að vöruhúsin eigi að hafa hrátt yfirbragð.

„Það er enginn glans. Það er enginn marmari, engar kristalsljósakrónur. Við klippum allan þann kostnað út. Við viljum að það sé hægt að keyra með vörurnar upp að húsinu, taka þær úr bílnum og setja vörubrettin beint inn á gólf með sem allra minnstri fyrirhöfn. Hjá okkur gengur allt út á hagkvæmni,“ segir Steve og útskýrir að það sé liður í því að halda verðinu niðri.

En þið leggið líka mikla áherslu á að ferð í Costco sé skemmtileg og eftirminnileg upplifun – hvernig fer það saman?

„Það snýst mikið um allt klikkaða dótið sem við bjóðum upp á inni á milli. Þú kemur inn og sérð kannski 90 tommu flatskjá. Við seljum boga, Bang & Olufsen-græjur – við erum með merki og vörur sem fá þig til að segja „vá“,“ segir Steve og nefnir sem dæmi demantshringa frá Swarowski sem Costco selur á upp undir 60 þúsund pund í Bretlandi, jafnvirði rúmlega átta milljóna króna. En verðið er gott vegna þess að Costco kaupir vörurnar í gríðarmiklu magni og selur í velflestum verslunum sínum, sem eru á áttunda hundrað víðsvegar í heiminum.

Í hverju Costco-vöruhúsi er einungis hægt að fá í kringum 3.800 vörutegundir hverju sinni. „En á heilu ári gætu kúnnarnir okkar séð tólf þúsund vörutegundir af því að við skiptum þeim svo ört út,“ segir Steve. „Um þriðjungur eru vörur sem við seljum alltaf – þú getur til dæmis alltaf gengið að 10 kílóa poka af sykri eða 20 kílóa poka af hrísgrjónum sem vísum. Annar þriðjungur eru árstíðabundnar vörur, útilegubúnaður á vorin og sumrin, skíði, sleðar og skautar um vetur og jólaskraut um jólin, svo að einhver dæmi séu nefnd. Síðasti þriðjungurinn eru svo tækifærisvörur, vörur sem fólk kaupir í hálfgerðri fjársjóðsleit. Það er galdurinn við Costco – fólk kaupir aldrei bara það sem það ætlaði sér. Þú mætir kannski til að kaupa þér grillaðan kjúkling og sjampó en sérð svo tilboð á golfkylfum sem þú getur ekki látið fram hjá þér fara. Ofan á þetta leggjum við mikið upp úr því að bjóða fólki að smakka og prófa áður en það kaupir, auk þess sem við erum með annars konar þjónustu á borð við gleraugnadeild og sjónmælingar, apótek, dekkjaverkstæði og veitingatorg. Allt vinnur þetta saman að því að gera ferðina í Costco að ævintýri.“

Steve samsinnir því að Costco reiði sig í raun mikið á skyndiákvarðanir viðskiptavina. „Já, algjörlega. Við viljum vera ómótstæðileg í augum Costco-meðlima. Við hreykjum okkur af því að fólk segi: Í hvert sinn sem ég fer í Costco ætla ég að eyða 50 dollurum en enda á að eyða 200. Og það er vegna þess að kjörin eru svo góð.“

Costco rekur 638 vöruhús í Norður-Ameríku, 57 í Asíu og Ástralíu, 28 í Bretlandi og tvö á Spáni. Ísland og Frakkland verða þriðja og fjórða Evrópulandið sem Costco hefur starfsemi í. En af hverju Ísland, og af hverju núna?

„Það er góð spurning, og ef þú hefðir spurt mig fyrir fimm árum hefði ég sagt þér að Ísland væri alls ekki á radarnum hjá okkur. En okkur skildist að margir Íslendingar þekktu Costco frá ferðum sínum til Bandaríkjanna, Kanada og Bretlands og að það væri áhugi á vörumerkinu hér. Við það bættist möguleikinn á að nýta eitthvað af því tóma húsnæði sem var til staðar hér og breyta því í Costco-vöruhús. Svo spilaði líka inn í að við höfum verið að velta fyrir okkur öðrum mörkuðum sem henta Costco mjög vel hvað varðar íbúasamsetningu en eru tæpast nógu stórir einir og sér til að réttlæta mikla yfirbyggingu þar, stórar skrifstofur og annað. Ég nefni sem dæmi Noreg, Svíþjóð og Danmörku. Við sáum okkur þess vegna þann leik á borði að prófa að opna eitt vöruhús á Íslandi sem verður stýrt og rekið að mestu leyti frá bresku skrifstofunni okkar og gá hvernig það heppnast.“

„Við hreykjum okkur af því að fólk segi: Í hvert sinn sem ég fer í Costco ætla ég að eyða 50 dollurum en enda á að eyða 200. Og það er vegna þess að kjörin eru svo góð.“
Brett Vigelskas og Steve Pappas við verslun Costco í Kauptúní Garðabæ.

Ljósmynd: Gollii

Steve segir að nú séu um þrjú ár síðan stjórnendur Costco fóru að velta þessum möguleika alvarlega fyrir sér. Hugmyndin hafi kviknað hjá Costco í Kanada, sem hafi átt í viðskiptum við íslenska aðila og áttað sig á því að íslenski markaðurinn gæti verið hentugur. Þar hafi boltinn farið að rúlla.

„Við erum mjög íhaldssöm þegar við veljum okkur nýja markaði og þess vegna þaulhugsuðum við þetta og ræddum í hörgul áður en við tókum ákvörðunina, en þegar allt kom til alls þá var yfirstjórn fyrirtækisins mjög hrifin þegar hún kom hingað í heimsókn til að kynna sér umhverfið. Hér eru mjög góð lífskjör, Íslendingar eru vel menntaðir og virðast vera góðir og meðvitaðir neytendur og svo er samkeppnin ekki mikil. Hér tíðkast vissulega lágvöruverðsverslanir og útsölur en almennt séð er verðlag mjög hátt. Ég held að við getum hæglega sýnt bæði íslenskum fjölskyldum og fyrirtækjaeigendum fram á mikinn sparnað af því að versla við okkur og bætt þar með efnahag landsins með því að auka samkeppnina í íslenskum verslunarrekstri.“

Hverja lítið þið þá á sem ykkar helstu samkeppnisaðila? Eru það fyrst og fremst stóru kjörbúðakeðjurnar eða hreinlega allir?

„Allir, í rauninni. Það er okkar sérstaða. Við keppum við byggingarvöruverslanirnar, íþróttavörubúðir, raftækjaverslanir, kjörbúðir og húsgagnasala en beinum ekki sjónum okkar að neinum sérstökum.“ Þar að auki mun Costco selja bensín á tólf dælum fyrir utan vöruhúsið. Það verður selt undir merkjum Kirkland, húsvörumerkis Costco-keðjunnar, en keypt af innlendum birgjum.

Steve segir samskipti við íslensk yfirvöld í aðdraganda opnunarinnar hafa gengið eins og í sögu.

„Þau hljóta að hafa gengið virkilega smurt fyrst ég þurfti svona litla aðkomu að hafa af þessu öllu sjálfur. Teymið okkar frá Bretlandi kom hingað, vann með skipulagsyfirvöldum og öðrum og þetta gekk allt mjög hratt og vel fyrir sig. Í Bretlandi hefur það stundum tekið okkur fimm til sjö ár að fá skipulagsleyfi fyrir nýjum vöruhúsum, en það var ekki um neitt svoleiðis að ræða hér. Mig grunar að yfirvöld hafi áttað sig á því hversu verðmætt það yrði fyrir markaðinn að fá Costco til Íslands, auk þess held ég að við séum frábær nágranni fyrir IKEA og ég veit raunar ekki hvað hefði annað átt að vera í þessu stóra húsi.“

Costco mun m.a. selja eldsneyti til meðlima í Costco.

Costco á Íslandi mun flytja inn mikið af erlendum vörum, en einnig selja íslenskar vörur, einkum þær sem innflutningshömlur gilda um, til dæmis mjólkurvörur og kjöt.

„Við hlökkum mjög til að kaupa vörur frá innlendum birgjum, og sumar íslenskar vörur eru þess eðlis að það er ekki til neitt sambærilegt fyrir okkur til að flytja inn. Það sem mér finnst þó enn meira spennandi eru möguleikarnir fyrir íslenska framleiðendur, að koma vörum sínum í búðir okkar erlendis – og þá er ég jafnvel að tala um öll 725 vöruhúsin. Ef það eru framleiðendur hérlendis sem gætu séð okkur fyrir gæðavörum í nægu magni, mér dettur til dæmis í hug þorskur eða eldislax, þá gætu orðið til viðskiptasambönd hér sem allir hagnast á.“

Costco-vöruhúsin eru ólík flestum verslunum sem Íslendingar þekkja að því leyti að þar fá einungis þeir að versla sem borga félagsaðild og fá þá í hendur Costco-kort sem þarf að framvísa í hverri heimsókn. Fyrir einstaklinga er verðið 4.800 krónur fyrir ársaðild en 3.800 fyrir fyrirtæki.

Hver er hugmyndafræðin að baki þessari félagsaðild?

„Við erum alltaf að leita að leiðum til að lækka verð, og að láta kúnna borga félagsgjald er ein leið til þess. Heildarhagnaður Costco jafngildir í rauninni heildaraðildargjöldunum – restin er meira og minna rekin á núlli,“ segir Steve. Meðalálagning á vörur í Costco er 14%, sem dugar nokkurn veginn til að reka starfsemina.

„Og við sjáum það að 80-88% fólks endurnýjar aðild sína á hverju ári. Það þýðir að fólk hlýtur að vera ánægt með okkur og hlýtur að sjá sparnaðinn svart á hvítu í heimilisbókhaldinu – annars mundi það væntanlega ekki endurnýja.“

„Heildarhagnaður Costco jafngildir í rauninni heildaraðildargjöldunum – restin er meira og minna rekin á núlli.“
Steve Pappas aðstoðarforstjóri á kynningu Costco í vetur. Verslunin í Kauptúni í Garðabæ mun opna í maí.

Steve kveðst ekki vilja gefa upp hvaða vonir hann gerir sér um fjölda félagsmanna á Íslandi.

„Við höfum ákveðnar hugmyndir um það hvað er raunhæft, en við tölum ekki um það. Auðvitað vonum við hins vegar að allir í Reykjavík og nágrenni kaupi sér aðild – við skulum segja að það sé okkar háleitasta markmið.“

Í vöruhúsi Costco á Íslandi munu starfa um 200 manns, þar af aðeins einn sem er fluttur inn sérstaklega frá Bretlandi; verslunarstjórinn Brett Vigelskas. Stefnt er að því að ráða alla aðra hérlendis. Þar eru millistjórnendur fyrstir á dagskrá og Steve segir það hafa farið vel af stað.

„Fyrsta ráðningin okkar var íslensk kona sem hefur búið hér í talsverðan tíma en var búsett í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna fyrir 7-8 árum og vann þar fyrir Costco, þannig að hún þekkti fyrirtækið og gat ekki beðið eftir að byrja að vinna fyrir okkur aftur. Við erum búin að ráða mikið af hæfu fólki sem við erum himinlifandi með.“

Atvinnuleysi á Íslandi er mjög lítið, svo ekki sé meira sagt. Er nægt fólk hérna fyrir ykkur að ráða?

„Það er góð spurning. Ég vona það svo sannarlega og trúi því. Ég held að það muni ekki verða vandamál. Við leggjum mikla áherslu á að hlúa vel að starfsfólki okkar, borgum betur en samkeppnisaðilarnir og það hefur sýnt sig að þegar fólk byrjar að vinna hjá okkur þá vill það ekki hætta. Í þjónustugeiranum er starfsmannavelta mikið vandamál – ég hef unnið hjá fyrirtækjum þar sem veltan er 75-100% á hverju ári. Hjá því fólki sem hefur unnið hjá Costco í eitt ár er starfsmannaveltan ekki nema um 5% á ári. Þegar allt er talið er hún um 11-12%. Þetta er einfaldlega vegna þess að við teljum að það sé skynsamlegt fyrir okkur að borga vel til að halda starfsfólkinu lengur, vegna þess að þá þurfum við ekki að eyða jafnmiklum tíma og peningum í sífelldar ráðningar og þjálfun. Vonandi virkar þessi formúla líka fyrir okkur á Íslandi.“

Eins og áður segir er stefnt að opnun í maílok. Hversu öruggur er Steve um að sú tímasetning standist?

„Ég er nokkuð öruggur. Auðvitað getur alltaf eitthvað komið upp á sem maður ræður ekki við, en við værum ekki að tala opinskátt um þessa tímasetningu nema við teldum að hún muni standast,“ segir Steve Pappas, aðstoðarforstjóri Costco í Evrópu.

„Við leggjum mikla áherslu á að hlúa vel að starfsfólki okkar, borgum betur en samkeppnisaðilarnir og það hefur sýnt sig að þegar fólk byrjar að vinna hjá okkur þá vill það ekki hætta.“
102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!