Sprenging hefur orðið í kaupum Íslendinga á vörum frá útlöndum í gegnum alþjóðlegar vefverslanir. Pósturinn hefur vart undan við að afgreiða sendingar og þarf að ráðast í framkvæmdir til að mæta álaginu. Vésteinn Viðarsson, vörustjóri pakkasendinga hjá Póstinum, segir mikil tækifæri fyrir innlendar vefverslanir, nú þegar brautin hefur verið rudd.

23. mars 2017

„Umfangið hjá okkur vegna sendinga og afhendingar á pökkum frá útlöndum vex bókstaflega dag frá degi og stór hluti af starfsemi fyrirtækisins snýst nú um þessa þjónustu,“ segir Vésteinn.

Vatnaskil urðu 2013 þegar Íslendingar uppgötvuðu kínversku netverslunina AliExpress og í framhaldinu aðrar sambærilegar vefverslanir. „Það ár varð tvöföldun á ábyrgðarsendingum frá útlöndum frá árinu áður og síðan þá hefur magnið sjöfaldast. Á móti einni sendingu árið 2012 eru því sjö í dag. Síðasta ár var metár og nú þegar bendir allt til þess að 2017 slái það met.“

Desember hefur í gegnum tíðina verið annamesti mánuðurinn hjá Póstinum. Einn mælikvarðinn á annir á þeim bæ er hringingar í þjónustuver. Það segir sína sögu að í júní á síðasta ári voru símtölin í þjónustuverið jafnmörg og í desember árið á undan. Og síðan þá hefur þeim bara fjölgað, allt vegna fyrirspurna um sendingar frá útlöndum.

Pósturinn hefur þurft að grípa til aðgerða til að mæta þessu aukna álagi. „Við höfum stækkað og breytt öllum grundvallarkerfum okkar til að höndla magnið en höfum samt varla undan. Þetta er gríðarlegt umfang. Við þurfum að byggja til að mæta þessu og stækka póstmiðstöðina og um leið efla flokkunarbúnað og tölvukerfi.“

Pósturinn hefur þurft að grípa til aðgerða til að mæta aukna álagi og hafa meðal annars stækkað og breytt grundvallarkerfum til að anna verkefnum.

Ljósmyndir:Golli

Að sögn Vésteins er það keppikefli Póstsins að finna leiðir til að hraða afhendingu sendinga, þ.e. stytta tímann frá því að varan kemur til Íslands og þar til hún kemst í hendur kaupandans. „Við höfum meðal annars byggt upp sólarhringsþjónustu – Póstbox – þar sem viðskiptavinir geta nálgast sendinguna sína hvenær sem er. Henni hefur verið mjög vel tekið og við munum þróa þá þjónustu áfram. Þá bjóðum við viðskiptavinum að greiða sjálfvirkt á netinu opinber gjöld af innflutningi og vinnum að fleiri nýjungum til að auðvelda fólki lífið í þessum efnum.“

Viðskiptin færast frá Asíu til Evrópu

Ýmislegt hefur breyst frá árinu 2013 þegar sprengingin varð. Viðskiptin voru þá einkum bundin við AliExpress í Kína og aðrar þarlendar verslanir en upp frá því tók fólk að skoða fleiri möguleika. „Árið 2015 var fjölbreytnin orðin meiri og fólk farið að skipta við miklu fleiri verslanir. Það var einkum athyglisvert að sjá hvernig viðskiptin færðust nær okkur landfræðilega og vefverslanir í Evrópu, sérstaklega í Þýskalandi og Bretlandi, urðu mjög vinsælar. Ég held að þar ráði bæði að fólk treystir betur evrópskum verslunum en asískum og svo er flutningstíminn vitaskuld styttri,“ segir Vésteinn.

Samfélagsmiðlar hafa mikil áhrif þegar vefverslun er annars vegar. Vésteinn segir fólk miðla upplýsingum um vel heppnuð kaup og margir ákveði að fylgja í kjölfarið. „Almennt hefur það mikil áhrif ef einhver segist á Facebook eða öðrum samfélagsmiðli hafa keypt ódýra en góða vöru á netinu.

Vésteinn segir Íslendinga kaupa alls konar vörur í gegnum erlendar vefverslanir en langmest sé keypt af fötum.

Eitt nýlegt dæmi er af lampa sem einhver keypti í gegnum erlenda vefverslun og miðlaði reynslu sinni og ágæti lampans út á netið. Það vatt upp á sig og tveimur mánuðum síðar stóðu ein tíu bretti af þessum lampa í póstmiðstöðinni. Þetta er ágætt dæmi um hvernig hlutirnir gerast. Einhver finnur áhugaverða vöru, er ánægður með hana og segir frá. Það getur undið svona upp á sig.“

Fólk á öllum aldri farið að versla á netinu

Vésteinn segir Íslendinga kaupa alls konar vörur í gegnum erlendar vefverslanir en langmest sé keypt af fötum. „Við vitum auðvitað ekki alltaf hvað er í sendingunum en af þeim upplýsingum sem við þó höfum sjáum við að fatnaður af ýmsu tagi er það sem langmest er keypt af. Annars er þetta allt milli himins og jarðar. Einu sinni var sagt að fólk myndi aldrei kaupa skó í gegnum netið, fólk vildi máta skó og finna út hvort þeir hentuðu, en það hefur aldeilis breyst. Svo er fólk farið að kaupa dekk frá útlöndum. Hver hefði trúað því fyrir fáum árum? Það nýjasta eru svo lyf. Þau eru auðvitað keypt hér innan lands og þar ræður mestu tilkoma rafrænu skilríkjanna sem gera slík kaup möguleg.“

Enn ein athyglisverða staðreyndin er svo sú að netverslun er ekki lengur bundin við tilteknar kynslóðir og þá einkum þær yngri. Fólk á öllum aldri er farið að versla á netinu, að sögn Vésteins.

Innlend vefverslun mun aukast á næstu misserum

Megnið af allri netverslun Íslendinga er við erlendar vefverslanir en Vésteinn telur að það muni breytast á næstunni. „Á tveimur árum höfum við séð hraða þróun. Íslenskar verslanir eru orðnar mjög öflugar í kringum Black Friday og Cyber Monday og auglýsa alls konar tilboð sem við sjáum að er mjög vel tekið. Þar hefur því fengist góður snertiflötur sem hægt er að byggja á og ég spái því að innlend netverslun eigi eftir að aukast mjög á næstu misserum. Stuttur afhendingartími skiptir marga máli og íslenskir aðilar eru auðvitað í kjörstöðu til að uppfylla þær kröfur.“

Vésteinn segir Póstinn reikna með áframhaldandi aukningu í netverslun á næstu árum. Ástæðulaust sé að ætla að vöxturinn haldi ekki áfram. „Sendingum frá útlöndum fjölgaði um 67% milli janúarmánaða 2016 og 2017 og á meðan netverslanirnar eru ennþá að þróast og eflast þá get ég ekki séð að það komi til með að draga úr viðskiptunum, þvert á móti. Evrópusambandið er að gera ýmislegt til að auðvelda enn frekar netviðskipti yfir landamæri innan sambandsins og netverslanirnar sjálfar vinna stöðugt að því að auðvelda fólki viðskiptin, til dæmis með því að stytta afhendingartíma. Þessar stóru alþjóðlegu verslanir eru líka farnar að efna til samstarfs við litla kaupmenn vítt og breitt um álfuna sem er spennandi nýjung.“

Dæmi um slíkt samstarf gæti verið svona: Elena á Spáni fer inn á þýsku vefverslunina Zalando og pantar sér skó. Spænskur skókaupmaður á í samstarfi við Zalando og hann á einmitt til skóna sem Elena keypti. Í stað þess að Zalando sendi skóna úr vöruhúsi í Þýskalandi til Elenu á Spáni fær hún þá senda frá skókaupmanninum landa sínum. Við það sparast bæði flutningskostnaður og tími. Zalando sér um alla umsýslu og heldur eftir umsömdum hlut af kaupverðinu. „Þannig að það er margt að gerast og um að gera fyrir íslenska verslun að fara á fullt, því þarna liggja ótal tækifæri,“ segir Vésteinn.

„Þessar stóru alþjóðlegu verslanir eru líka farnar að efna til samstarfs við litla kaupmenn vítt og breitt um álfuna sem er spennandi nýjung.“
102:Þessi frétt er runnin út og mun ekki birtast!