Landsbankinn varar eindregið við falsfréttum af skjótum gróða nafngreindra Íslendinga sem dreift hefur verið á Facebook og víðar. Í sumum tilfellum eru falsanirnar töluvert sannfærandi.

4. október 2018

Þessar fölsku fréttir hafa þann tilgang að fá fólk til að gefa upp kreditkortaupplýsingar eða aðrar fjárhagslegar upplýsingar í þeim tilgangi að svíkja fé af fólki.

Við höfum áður fjallað um skilaboðasvik og gylliboð á netinu, þar með talið falskar atvinnuauglýsingar, loforð um skjótfenginn gróða, óvæntan arf, lottóvinning og þessháttar. Falsfréttir (e. fake news) eru af sama toga. Það var þó fyrst nú á þessu ári sem margar slíkar tóku að birtast á íslensku, jafnvel á vandaðri íslensku, og á vefsíðum sem hermdu eftir útliti þekktra íslenskra miðla. Í mörgum slíkum falsfréttum er fjallað um hvernig viðkomandi einstaklingur græddi fúlgur fjár með auðveldum hætti. Falsfréttum fylgja gjarnan myndir af einstaklingnum sem teknar hafa verið af netinu.

Falsfréttir geta því verið mjög sannfærandi útlits, jafnvel þótt þær séu uppspuni frá rótum. Ekki er alltaf nóg að leita að upplýsingum úr falsfréttinni í leitarvélum því svindlararnir hafa gjarnan stofnað aðrar síður sem styðja falsfréttina og valda því að aðvaranir birtast neðar í leitarniðurstöðum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjallaði um þessi svik í færslu í byrjun október 2018.

Kortafyrirtækið Valitor hefur einnig varað við svona fréttum. RÚV og visir.is eru meðal þeirra innlendu fréttamiðla sem hafa fjallað um þetta vandamál.

Í þessari falsfrétt eru ýmislegt sem sýnir að hún er fölsuð. Þarna stendur t.a.m. Viðskiptabaðið en ekki Viðskiptablaðið, mánaðarheitið er ritað með röngum hætti og netfang ritstjórnar Viðskiptablaðsins (vb.is) er rangt, þ.e. endar á vba.is.

Hver er tilgangur falsfrétta

Að baki falsfrétta eru gjarnan svikamyllur sem miða að því að plata grandalausa einstaklinga til að láta fé af hendi. Í öðrum tilvikum er reynt að laða fram upplýsingar um bankareikninga, kreditkort, aðgangsupplýsingar í netbanka og þess háttar. Netsvikarinn hagnýtir svo þessar upplýsingar til að svíkja út fé.

Núorðið er það á hvers manns færi að semja falsfréttir og birta á trúverðugri vefslóð. Sé leitað að “fake news generator” á Google, vísa leitarniðurstöður á aragrúa vefsíðna sem semja sjálfkrafa og samstundis falskar fréttir, eða að fréttaritara gefst kostur á að hafa áhrif á textaritun og hlaða sjálfur inn myndum. Vefsíðurnar útvega sérstaka vefslóð sem falsfréttasmiður deilir svo á netinu.

Viðskiptamódel falsfrétta nútímans er þess eðlis að erfitt er að berjast gegn þeim. Því meira sem smellt er á þær, þeim mun ábatasamari eru þær. Við þetta bætist að þegar lesandi deilir falsfrétt er hann ekki aðeins að tryggja að hún fari á flug, heldur er hann einnig að ljá falsfréttinni ákveðinn trúverðugleika eða vægi. Þess vegna ætti fólk hvorki að smella á né deila falsfréttum.

Hvað er til ráða?

Vandaðir fréttamiðlar stunda góða fréttamennsku og verja tíma og fjármunum í að byggja upp orðspor og traust. Þeir leggja mikla vinnu í heimildaöflun og kanna staðreyndir eins og frekast er unnt.

Fyrir okkur lesendur er helsta ráðið að beita heilbrigðri skynsemi, yfirvegun og gagnrýnni hugsun. Það er góð regla að velta ávallt fyrir sér réttmæti fréttarinnar og uppruna hennar. Er fréttin á viðurkenndum fréttamiðli? Er slóðin á viðkomandi vefsíðu örugglega rétt? Þá er góð regla að deila ekki fréttum í hugsunarleysi.

Svikatilraunir verða sífellt vandaðri og útsmognari og því er rétt að ítreka mikilvægi þess að vera á varðbergi gagnvart óvæntum tilboðum. Það sem hljómar of gott til að vera satt er líklega ekki satt.

Tengt efni:

14 góð ráð um öryggi í netviðskiptum

Umfjöllun á Umræðunni um hvernig má stuðla að auknu netöryggi