Þrátt fyrir að meira sé nú um tilraunir til hvers kyns netsvika falla færri í gildruna. Það sem af er árinu 2020 hefur fjársvikamálum á netinu, þar sem svikin takast og tjón verður, fækkað um helming miðað við sama tíma árið 2019. Við teljum að þróunin sé að mestu leyti fræðslu og umræðu um netöryggi að þakka en kórónuveirufaraldurinn hefur líka sín áhrif.

8. október 2020 | Hermann Þ. Snorrason

Óvenju fá árangursrík netsvikatilvik í ár

Á alþjóðavísu eru netsvik flokkuð í ellefu flokka. Það sem af er árinu 2020 hefur þróunin verið jákvæð í þremur þeirra en þessi breyting dugar til að draga heildarfjölda netsvikamála ársins 2020 niður um helming, haldi þróunin áfram. Hér er miðað við skráningu hjá Landsbankanum en ekki eru til upplýsingar um ástandið á landsvísu.

En hvað breyttist? Að okkar mati er helsta skýringin sú að vitundarvakning hefur orðið í netöryggismálum. Veturinn 2016-2017, þegar fjársvikatilraunir höfðu verið í örum vexti, hóf Landsbankinn að gefa út fræðsluefni um netöryggismál sem við birtum á vef bankans, í auglýsingum, á Facebook og víðar. Lögreglan, fjölmiðlar og fleiri aðilar hafa einnig fjallað um þessi mál og birt fjölda frétta og greina með aðvörunum og leiðbeiningum til fólks og fyrirtækja. Fólk þekkir nú betur hætturnar og kann að varast þær. Árangurinn sýnir að fræðsla gegnir lykilhlutverki í baráttunni við netsvikin.


Mikil fækkun Airbnb-svika

Öll þekkjum við að kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til færri utanlandsferða. Um leið hefur fjársvikatilraunum vegna heimagistinga erlendis fækkað um 46% á milli ára. Einkum hefur orðið mikill samdráttur í árangursríkum Airbnb-svikum en þau felast til dæmis í því að svikarar villa á sér heimildir til að innheimta gistigjald utan Airbnb-kerfisins, með beinni millifærslu frá leigutaka til glæpamannsins. Falska innheimtan getur m.a. falist í tilraunum til að innheimta „bætur“ vegna meints tjóns sem leigutakar eru sagðir hafa valdið á fasteigninni.

Þekkja fyrirmælafalsanir betur

Enn er mikið sótt að fyrirtækjum með fyrirmælafölsunum en árangurshlutfall glæpamanna hefur dregist saman um 42% frá því sem mest lét á árunum 2016 til 2018. Um er að ræða tilraunir til að svíkja fé út úr fyrirtækjum með því að falsa tölvupósta og gefa fölsk fyrirmæli um greiðslur inn á reikninga sem svikararnir hafa yfir að ráða. Samtöl við viðskiptavini gefa eindregið til kynna að með bættu verklagi fyrirtækja takist þeim nú að greina slíkar tilraunir betur og hraðar.

Fjárfestasvikum fækkar

Síðast en ekki síst ber að nefna 88% fækkun fjárfestasvika sem voru algengustu svikin gegn einstaklingum á árinu 2019. Fjárfestasvik geta t.d. falist í óvæntu símtali, skilaboðum, tölvupósti, færslu á samfélagsmiðlum eða auglýsingum á netinu. Oft snúast þau um fjárfestingu í rafmynt eða kaupum á hlutabréfum. Fækkunin skýrist einkum af tvennu. Annars vegar hafa samfélagsmiðlar náð ívið betri árangri við að greina og fjarlægja falskar auglýsingar og hins vegar eru neytendur betur á varðbergi.

Verum vakandi

Þrátt fyrir að þróunin sé á ýmsan hátt jákvæð er engu að síður töluvert um netsvik. Á þessu ári hefur t.a.m. þurft að loka um 7% fleiri kreditkortum hjá viðskiptavinum bankans, miðað við sama tíma árið 2019, vegna kortasvika eða gruns um svik. Í september 2020 birti Landsbankinn grein um ástarsvik og umfang þeirra. Umfjöllunin ein og sér varð til þess að fleiri fórnarlömb stigu fram. Þar sannaðist aftur gildi opinnar umræðu um erfið mál.

Svikahrappar munu halda áfram að leita leiða til að blekkja fólk og svíkja. Við lítum svo á að hlutverk Landsbankans í netöryggimálum sé m.a. að auðvelda fólki að meta gildi og réttmæti upplýsinga, að hjálpa því við að draga ályktanir og verjast svikatilraunum. Á Umræðuvef Landsbankans er fjölbreytt fræðsluefni um varnir gegn netsvikum undir yfirskriftinni Verum vakandi

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október 2020.