Verslun á netinu er ekki hættulaus og tölvuþrjótar leggja mikið á sig til að stela greiðsluupplýsingum eða svíkja fé út úr fólki með öðrum hætti. Hér fyrir neðan eru nokkur einföld ráð til að minnka hættuna á netsvikum.

21. nóvember 2018

Vefverslun Íslendinga hefur aukist mikið og hafa kortasvik á netinu aukist í takti við aukna notkun kortanna á netinu. Því er mikilvægt að korthafar geri ráðstafanir til að auka öryggi sitt í netviðskiptum.

1. Greiðslusíður eiga alltaf að vera dulkóðaðar

Slóðin á greiðslusíðum netverslana á að hefjast á stöfunum „https“, sem tryggir að öll gögn séu dulkóðuð, við hlið slóðarinnar á að vera mynd af læstum lás.

2. Sláðu inn slóðina – ekki smella á hlekki

Ekki smella á hlekki sem þú færð í fjölpósti eða í auglýsingum á netinu. Farðu frekar beint inn á vefverslunina. Algengt er að tölvuþrjótar sendi tölvupóst og biðji fólk um að staðfesta lykilorð, greiðsluupplýsingar og þess háttar. Slíkar upplýsingar geta þeir notað til að svíkja út fé.

3. Kynntu þér við hvern þú ert að versla

Það er mikilvægt að þekkja seljandann og vöruna áður en þú gefur upp kortaupplýsingar, t.d. með því að leita að nafni verslunarinnar á netinu eða spyrjast fyrir um reynslu annarra. Öruggast er að versla við aðila sem eru þekktir og aðrir hafa góða reynslu af.

Dæmi um útlit vefslóðar á öruggum síðum

Vefslóðir sem hefjast á „https“ tryggja að öll gögn séu dulkóðuð.

4. Ekki vista kortaupplýsingar á netinu

Algengt er að vefverslanir bjóði upp á að vista kortaupplýsingar og hið sama gera margir netvafrar. Af þessu hlýst hætta á að óprúttnir aðilar komist yfir greiðsluupplýsingar. Því er öruggara að slá inn kortaupplýsingarnar hverju sinni í stað þess að vista þær í verslun eða vafra.

5. Ekki nota sama lykilorðið alls staðar

Það er alls ekki góð hugmynd að nota sama lykilorðið á mörgum stöðum, þannig getur sá sem kemst yfir lykilorð einum stað komist í aðganginn þinn á mörgum stöðum. Innskráning með Facebook- eða Google-aðgangi getur þó verið ágæt og örugg leið til að skrá sig inn.

6. Notaðu lykilorð sem er erfitt að giska á

Öruggast er að nota lykilorð sem innihalda bókstafi í há- og lágstöfum, tölur og tákn. Lykilorð á að vera erfitt að giska á en auðvelt að muna og alls ekki tengt einhverju sem er auðvelt að fletta upp eins og afmælisdegi, börnum eða maka.

7. Fylgstu með færslum í netbankanum

Það borgar sig að fylgjast vel með bankareikningum og greiðslukortum, sérstaklega í fríum og í aðdraganda jóla, þegar færslur eru óvenju margar. Flest kortafyrirtæki bjóða líka vöktunarþjónustu sem sendir sjálfkrafa tilkynningar þegar kortið er notað á vefnum eða ef greiðslur fara yfir ákveðna fjárhæð.

Öruggara er að slá inn kortaupplýsingarnar hverju sinni í stað þess að vista þær í verslun eða vafra.

8. Mundu að skrá þig alltaf út

Mundu að skrá þig alltaf út af netversluninni eftir að hafa verslað á netinu, sérstaklega ef þú samnýtir tölvur með öðrum.

9. Ekki versla á opnu neti

Það er aldrei góð hugmynd að versla á opnu neti á kaffihúsum, flugvöllum eða álíka stöðum. Verslaðu helst á læstu neti heima hjá þér eða notaðu farsímagagnatenginguna í símanum þínum ef þú verslar utan heimilisins.

10. Notaðu vandaðar greiðsluleiðir

Þegar verslað er við vandaðar netverslanir er öruggt að nota kreditkort. Til að takmarka frekar hættu á tjóni má nota t.d. Paypal, fyrirframgreidd kreditkort eða gjafakort. Í sumum vefverslunum er hægt að nota debetkort en notkun þeirra hefur þann kost að upplýsingar um færslur birtast strax í netbanka. Ekki er mælt með millifærslum á reikning verslunar eða þjónustuveitanda.

11. Treystu á hyggjuvitið og varastu tilboð sem eru of góð til að vera sönn

Varúð í vefverslun snýst að miklu leyti um heilbrigða skynsemi og hyggjuvit. Ef tilboðið er óeðlilega gott eða eitthvað í tækniumhverfi eða útliti verslunarinnar er grunsamlegt skaltu einfaldlega hætta við kaupin eða að minnsta kosti kynna þér hlutina betur. Mögulega er varan illa fengin eða fölsuð. Sumar verslanir hagnast einnig á því að selja greiðsluupplýsingar viðskiptavina eða segja vöruna uppselda og reyna síðan að pranga dýrari útfærslu inn á viðskiptavininn.

Verslaðu á öruggri nettengingu, helst á læstu neti heima hjá þér.

12. Veittu aðeins nauðsynlegar upplýsingar

Vefverslanir þurfa ýmsar upplýsingar eins og nafn, netfang og heimilisfang. En það er engin eðlileg ástæða til að biðja um mynd af skilríkjum, s.s. vegabréfi eða ökuskírteini, og ekki heldur upplýsingar um bankareikning, lykilorð, leyninúmer eða annað slíkt. Ef þú færð slíka beiðni skaltu hætta við viðskiptin. Besta ráðið er að vera varkár og meta réttmæti spurninga hverju sinni.

13. Geymdu öll gögn

Geymdu kvittanir, pöntunarnúmer, vörulýsingar og auglýst verð á þeirri stundu sem kaupin fóru fram. Geymdu tölvupóstkvittanir og tilkynningar um viðskiptin.

14. Gættu þess að tölvan sé í lagi

Uppfærðu öryggisbúnað og hugbúnað reglulega og forðastu að versla á tölvum sem þú veist að hafa ekki verið uppfærðar nýlega.


Pistillinn birtist fyrst 25. apríl 2017 en var uppfærður í nóvember 2018.